Minningarorð um Jónínu Björgu Guðmundsdóttir

skrifað 09. okt 2008

Þann 13. Júní síðastliðinn lést Jónína Björg Guðmundsdóttir félagsráðgjafi eftir erfið veikindi. Jónína fæddist 11. september 1961. Hún lauk BA prófi í uppeldisfræði og starfsréttindum í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 1990. Eftir að námi lauk vann hún um nokkra mánaða skeið hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur Álfabakka. Síðan lá leið hennar á Félagsmálastofnun Kópavogs, þar sem hún starfaði sem félagsráðgjafi frá 1992-1995. Jónína réð sig til starfa á Landspítalann við Hringbraut  1995-1998 og vann á taugalækningadeildinni í Fossvogi eftir sameiningu spítalanna frá 2001-2005.

 

Ummæli um Jónínu af samstarfsfólki  hennar eru á einn veg. Hún var félagsráðgjafi af lífi og sál. Það sem einkenndi hana öðru fremur í starfi var hversu mikla samkennd hún hafði með sjúklingunum og hversu hart hún barðist fyrir réttindum þeirra. Jónína mætti sjúklingum sínum með sérstakri næmni og skilningi. Hún var eldhugi þegar að kom að málefnum þeirra. Félagsráðgjafastarfið með sjúklingum átti einstaklega vel við Jónínu og var samstarf hennar við aðrar fagstéttir á sjúkrahúsinu gott. Málefni langveikra einstaklinga voru Jónínu hugleikin og hafði hún mikinn metnað fyrir þeirra hönd og óþrjótandi áhuga á bættum hag þeirra.

Er Jónína lét af störfum við Landspítalann snéri hún sér alfarið að starfi fyrir LAUF, Landssamtök áhugafólks um flogaveiki. Jónína hafði starfað þar samhliða vinnu sinni á sjúkrahúsinu og vann fyrir þau samtök í 12 ár. Hún sinnti því starfi af einstakri alúð og miklum áhuga, en í eftirmælum formanns samtakanna um Jónínu kom eftirfarandi fram:“ Fyrir Landsamtök áhugafólks um flogaveiki var hún ótrúlegur happafengur. Starfsvettvangur hennar var mjög fjölbreyttur, á hennar herðum var blaðaútgáfa félagsins, umsóknir um styrki, öflun efnis fyrir blaðið, umsjón með heimasíðunni, þýðingar á bæklingum og öll erlend samskipti og vinnustaðir sem kölluðu eftir fræðslu. Að hafa slíkan starfskraft hjá líknarfélagi, glaðan, úrræðagóðan, hugmyndaríkan og jákvæðan er ómetanlegt.“ Jónína sat í stjórn Evrópuráðs flogaveikra og tók einnig þátt í norrænu samstarfi flogaveikra.
Jónína vann einnig hjá Gigtarfélagi Íslands í tvö og hálft ár og sá síðan um fræðslu og Gigtarlínuna í hjáverkum meðan heilsan leyfði. Fleiri sjúklingafélögum sinnti Jónína, en hún vann einnig fyrir Parkinsonsamtökin við að byggja upp jafningjastuðning, sem byggir á eigin reynslu þátttakenda og skilningi á þeim erfiðu viðfangsefnum sem fólk í svipaðri stöðu er að glíma við. Auk þess var hún hjá MS-félagi Íslands um tíma og tók þátt í að leiða námskeið fyrir nýgreint fólk með MS-sjúkdóminn. Framtíðarsýn Jónínu fólst í því að efla og styðja þessi sjúklingafélög og eflaust fleiri ef henni hefði enst aldur til.
Jónína lauk framhaldsdiplóma í opinberri stjórnsýslu nú í vor, en hugur hennar stefndi til frekara náms í þeim fræðum.
„Í starfi sínu vann hún ötullega að því að reyna að bæta heiminn fyrir þá sem urðu á vegi hennar og þurftu á hennar hjálp að halda.“ (LAUF).

Hennar er sárt saknað af öllum sem hana þekktu.

Fyrir hönd Félagsráðgjafafélags Íslands
Margrét Kaldalóns Jónsdóttir og Margrét Sigurðardóttir