Kjarakönnun BHM fyrir 2013 er komin út

skrifað 18. sep 2014
photo 5

Þá eru niðurstöður annarrar kjarakönnunar BHM komnar út.

Kynning á kjarakönnun BHM

Helstu niðurstöður er þær að launaþróun hélt ekki í við almenna launavísitölu. Þá kemur fram að kynbundinn launamunur dregst saman, þó mismunandi mikið eftir vinnustöðum. Rúmlega helmingur svarenda með námslán telur endurgreiðslu þeirra íþyngjandi eða verulega íþyngjandi.

Á árinu 2013 hækkuðu launatekjur og starfstengdar greiðslur félagsmanna BHM að nafnvirði um 4,2% á milli ára. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 5,7% sem þýðir að launahækkanir á íslenskum vinnumarkaði voru umfram þær hækkanir sem félagsmenn BHM fengu. Meirihluti svarenda Kjarakönnunar BHM er með meistara- eða doktorsgráðu.

Launamunur kynja minnkaði um rúm þrjú prósentustig milli ára. Minnstur var launamunurinn hjá starfsfólki félagasamtaka og sjálfseignastofnana en mestur hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg. Sveitarfélög utan Reykjavíkurborgar eru jafnframt einu vinnustaðirnir þar sem launamunur hækkar milli ára og mælist 22%. Leiðréttur kynbundinn launamunur innan BHM í heild lækkar um þrjú prósentustig, var 11,9% árið 2012 en 8,9% árið 2013.