Jónsmessuganga FÍ á Móskarðshnjúka

skrifað 21. jún 2011

Jónsmessuganga 2011 Félagsráðgjafafélags Íslands Þann 29.júní, klukkan 17:30 verður hin árlega Jónsmessuganga Félagsráðgjafafélagsins farin og er ferðinni heitið upp Móskarðshnjúka. Erfiðleikastigið er mjög svipað því að ganga á Esjuna, jafnvel auðveldara þar sem brattinn er ekki eins mikill.

 

Mynd af móskarðshnjúkum
moskardshnjukar.jpg

Þeir sem hafa hug á að samnýta bíla, sem er sérstaklega skynsamlegt og þarft á tímum stjórnleysis í eldsneytisverði, eru hvattir til að mæta í móðurskip Félagsráðgjafafélagsins, að Borgartúni 6, klukkan 16:30. Gangan hefst 17:30. Göngugarpar eru hvattir til að hafa með sér orkugjafa sem þarfnast ekki eldunar.

Ökuferðin: Ekið er frá Reykjavík upp Mosfellsdal. Beygt er til vinstri efst í dalnum þar sem er skilti merkt Hrafnhólar. Eftir að komið er framhjá Hrafnhólum er ekið til hægri eftir malarslóða að gamalli sumarhúsabyggð. Hér endar slóðinn við Skarðsá en yfir hana er nokkuð há göngubrú.

Gangan: Gengið upp móann til hægri og upp á Þverfellið, hægra megin við Gráhnúk (stundum nefndur Hrútsnef). Eftir Þverfellinu er gengið að vestari hnjúknum en þar tekur við greinileg gönguslóð sem rétt er að fylgja. Liggur slóðin í austur utan í vestari hnjúknum og í skarðið milli hnjúkanna. Úr skarðinu er greiðfær leið upp á eystri hnjúkinn sem er hærri eða 807 metrar yfir sjávarmáli. Síðan er tilvalið að ganga á vestari hnjúkinn sem er 787 metra hár. Þaðan má síðan ganga niður vestan megin en taka síðan stefnuna aftur á Þverfellið. Síðan er haldið niður sömu leið. Heildar göngutími: 4 tímar

Stjórn Félagsráðgjafafélagsins vonast til þess að sjá sem flesta, Baráttukveðjur,

Hildigunnur Árnadóttir, gjaldkeri FÍ.