Hlaut viðurkenningu fyrir starf í þágu innflytjenda

skrifað 30. des 2008

eddaofl.jpgForseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Halldóri Ho, Eddu Ólafsdóttur og félaginu Móðurmál viðurkenningu Alþjóðahúss „Vel að verki staðið“ fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi við athöfn í Alþjóðahúsinu í dag.
 
Viðurkenningunni, sem nú er veitt í sjötta skipti, er ætlað að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Veittar voru viðurkenningar fyrir lofsverða frammistöðu í þremur flokkum: til einstaklings af erlendum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins, til einstaklings af íslenskum uppruna sem hefur lagt sitt af mörkum til innflytjenda á Íslandi og til fyrirtækis, stofnunar eða félagasamtaka fyrir framlag til málefna innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins, að því er segir í tilkynningu.

Edda Ólafsdóttir er félagsráðgjafi hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og hefur starfað að málefnum innflytjenda í rúmlega 10 ár. Hún vann að stefnumótun Reykjavíkurborgar um málefni innflytjenda og hefur verið virk í samstarfsteymi um málefni innflytjenda.

Edda kom að stofnun teymisins og hefur í starfi sínu sem félagsráðgjafi hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík og seinna Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða haft margvísleg tengsl við málefni innflytjenda. Málefni fjölskyldna og barna er henni sérstakt áhugamál.

 
Edda vann að móttöku flóttamanna frá Kólumbíu sem kom til landsins 2007 og hefur setið í ýmiss konar samstarfshópum um málefni innflytjenda innan og utan vinnustaðar síns. Þar má nefna sem dæmi Allar heimsins konur, hóp um málefni fjölskyldna, Norrænt-Eystrasaltsverkefni um úrræði til aðstoðar fórnarlömbum mansals o.fl.
 
Edda hefur auk þess komið að kennslu og fræðslu í Háskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands um málefni innflytjenda.