Hanna Lára Steinsson vann frumkvölaverðlaun Innovit 2008

skrifað 16. apr 2008

hannalara.jpgHanna Lára Steinsson félagsráðgjafi og  meistaranemi í stjórnun heilbrigðisþjónustu  við Háskólann á Bifröst hlaut þriðju verðlaun í Frumkvöðlakeppni Innovit 2008. Keppnin er ætluð íslenskum háskólanemum og nýútskrifuðum og alls bárust rúmlega 100 viðskiptahugmyndir í keppnina.

Innovit er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur þar sem lögð er megináhersla á viðskiptatækifæri sem spretta úr starfi íslenskra háskóla. Meginmarkmið þess er að auka þátt háskólamenntaðra einstaklinga í frumkvöðlastarfsemi á Íslandi og stuðla að fjölgun sprotafyrirtækja í þekkingariðnaði.

 

Frumkvöðlakeppni Innovit sameinar tvo mikilvæga þætti fyrir eflingu nýsköpunar og stuðnings við sprotafyrirtæki. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum veitt þjálfun, aðhald og stuðningur og í öðru lagi er með keppninni búin til ákveðin umgjörð sem vænst er að verði með árunum gæðastimpill á viðskiptahugmyndir.

Verðlaunahugmynd Hönnu Láru nefnist Bjarmalundur ehf. Bjarmalundi er ætlað það hlutverk að veita samfelldan stuðning við sjúklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra, allt frá því að grunur vaknar um sjúklegt ástand og þar til viðkomandi vistast á sólarhringsstofnun. Með því að létta álaginu af fjölskyldum geta sjúklingar dvalið lengur heima en það er fjárhagslega hagkvæmt fyrir samfélagið. Einnig er gert ráð fyrir að hlutverk Bjarmalundar verði að vera leiðandi í rannsóknum,stefnumótun og nýjum úrræðum varðandi þennan viðkvæma skjólstæðingahóp.

Verðlaunaféð nam 500 þúsund krónum en auk þess hlaut Hanna Lára sérfræðiráðgjöf frá Innovit að verðmæti 250 þúsund krónur.
  Nánari upplýsingar finnur þú á www.innovit.is og www.bifrost.is. Við óskum henni auðvitað til hamingju með árangurinn