Hanna Lára Steinsson kjörinn Félagsráðgjafi ársins

skrifað 27. maí 2008

Hanna.JPGHanna Lára Steinsson félagsráðgjafi, MA stýrir eigin ráðgjafarstofu um Alzheimer og öldrun, Bjarmalundi, og er væntanlega að fara í samstarf við Heilsuverndarstöðina til að opna skammtímadeild, dagdeild og afþreyingu/tómstundir fyrir nýgreinda sjúklinga - allt ný úrræði varðandi þennan hóp. Hún var fyrsti forstöðumaðurinn fyrir RBF (ráðgjafarstofu í barna- og fjölskylduvernd) og kom því af stað (2006-2007) og frá 1997-2006 vann hún á Landakoti. Hún var fyrsti félagsráðgjafinn sem var ráðinn í 100% stöðu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur.

Að loknu MA-námi í félagsráðgjöf í HÍ 2002 fékk hún 50% rannsóknarstöðu þar sem hún vann rannsókn um Alzheimerssjúklinga á aldrinum 45-65 ára. Afrakstur hennar er m.a. að finna í bók Hönnu Láru sem ber heitið ,,Í skugga Alzheimers''. Frá 2002 hefur hún verið í norrænum vinnuhópi sem vinnur að áætlun um úrræði fyrir yngri Alzheimerssjúklinga. Þann 12. apríl vann hún þriðju verðlaun í frumkvöðlakeppni Innovit þar sem yfir 100 háskólanemendur tóku þátt.

Við óskum Hönnu Lára til hamingju!