Fundur með Þorsteini Víglundssyni, félags- og jafnréttismálaráðherra 22. mars

skrifað 02. apr 2017
ÞV

Félagsráðgjafafélag Íslands óskaði eftir fundi með háttvirtum félags- og jafnréttismálaráðherra til að kynna sýn félagsráðgjafa á það hvernig hægt er tryggja gæði í félagsþjónustu sveitarfélaga nú þegar lög um félagsþjónustu sveitarfélaga eru í heildstæðri endurskoðun í velferðarráðuneyti. Fundurinn var miðvikudaginn 22. mars og fyrir hönd stjórnar Félagsráðgjafafélagsins mættu þær María Rúnarsdóttir, formaður og Dagbjört Rún Guðmundsdóttir, meðstjórnandi.

Félagsráðgjafafélagið hefur lengi kallað eftir því að störf félagsráðgjafa verði lögvernduð en starfsheitið hefur verið lögverndað frá árinu 1975. Hefur félagið á undanförnum tíu árum átt samtöl við félags- og/eða heilbrigðisráðherra á hverjum tíma til að ræða hvernig tryggja megi gæði í félagsþjónustu sveitarfélaga og barnaverndarstarfi.

Menntun félagsráðgjafa undirbýr þá sérstaklega til að sinna störfum á þessum vettvangi og eru félagsráðgjafar eina fagstéttin sem hefur félagsmálalöggjöf og meðferð barnaverndarmála sem skyldufög í námi sínu auk þess sem þeir fá bæði fræðilega þekkingu og klíníska þjálfun í vinnuaðferðum félagsráðgjafa, sækja námskeið um viðtalstækni, vinnu með börnum og unglingum, hópavinnu, samfélagsvinnu, fjölskylduvinnu og meðferð. Félagið hefur ítrekað bent á að tryggja verði að sveitarfélögin hafi yfir að ráða fagfólki sem hefur menntun og færni til að takast á við margþætt verkefni félagsþjónustunnar og eru félagsráðgjafar meðal þeirra stétta sem hafa mikla reynslu af því að vinna með skjólstæðingum félagsþjónustu sveitarfélaga. Félagsráðgjafar hafa heildarsýn að leiðarljósi í vinnu sinni með fólki og leita leiða til þess að tengja saman þjónustukerfi og þannig ná fram aukinni skilvirkni í þjónustu með samstarfi og samþættingu þjónustu sem veitt er af ólíkum þjónustukerfum og stofnunum samfélagsins. Mikilvægt er að sveitarfélögin hafi á að skipa þverfaglegum starfshópi félagsráðgjafa, þroskaþjálfa og sálfræðinga svo þau geti tryggt íbúum sínum gæðaþjónustu.

Sú tillaga sem nú er í frumvarpsdrögum um breytingu á lögum um félagsþjónustu hefur að mati Félagsráðgjafafélagsins mikla annmarka því hætt er við að sveitarstjórnir telji nægjanlegt að ráða fólk með BA í félagsráðgjöf til þess að uppfylla skilyrði laganna. Aukinheldur er orðalagið um hliðstætt svið mjög villandi þar sem félagsráðgjafi er lögverndað starfsheiti og því engin önnur menntun henni sambærileg.

Til viðbótar við áherslur félagsins um lögverndun starfa í félagsþjónustu sveitarfélaga með það að markmiði að tryggja gæði þjónustunnar vill félagið koma á framfæri mikilvægi þess að nýta tækifærið nú og marka skýra stefnu og sýn á skyldur sveitarfélaga til að veita félagsþjónustu til margvíslegra hópa notenda félagsþjónustu og skilgreina skyldur sveitarfélaga þegar kemur að uppbyggingu sértækra úrræða fyrir ákveðna notendahópa s.s. heimilislausa, áfengis-og vímuefnaneytendur, fólk með geðheilbrigðisvanda sem fellur ekki undir lög um þjónustu við fatlað fólk og aðra þá hópa sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda. Jafnframt þarf að huga að samspili laganna við önnur lög s.s. lög um málefni aldraðra og innflytjendalöggjöf sem er ört vaxandi málaflokkur í félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem félagsráðgjafar eru lykilstétt.

Síðast en ekki síst vildi Félagsráðgjafafélag Íslands nota tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum við skort á tengingu frumvarps um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga við aðra umræðu sem snertir skilyrðingu fjárhagsaðstoðar. Í því samhengi hefur félagið gagnrýnt þær tillögur sem fram hafa komið og vakið athygli á mikilvægi þess að orðalag laga um félagsþjónustu sveitarfélaga byggi í hvívetna á valdeflingu, virkni og hvatningu, eða virkri velferðarþjónustu þar sem það er réttur að fá aðstoð til virkni og stuðning félagsráðgjafa og annarra sérfræðinga. Hefur félagið lagt til að gerðar verði virkniáætlanir fyrir alla þá sem sækja um fjárhagsaðstoð og mögulega í allri félagsþjónustu sveitarfélaga. Var mikil umræða um mikilvægi virkrar velferðarþjónustu og snemmtækrar íhlutunar. Bindum við vonir við að ráðherra haldi þessari sýn á lofti í stefnumörkun sinni á komandi misserum.

Að endingu var athygli vakin á Evrópuráðstefnu sem félagið heldur í Hörpu í maí. Fundurinn gekk í alla staði vel en það er flókið að koma öllum þeim atriðum og umræðum að á þeim stutta tíma sem úthlutað er til slíkra funda. Við bindum vonir við að fræjum hafi verið sáð á þessum fundi sem ráðherra minnist síðar í störfum sínum, við stefnumörkun í félagsþjónustu sveitarfélaga.