Fundur með Óttarri Proppé, heilbrigðisráðherra, 12. apríl 2017

skrifað 13. apr 2017
Óttarr Proppé

Félagsráðgjafafélag Íslands óskaði eftir fundi með háttvirtum heilbrigðisráðherra til að kynna sýn félagsráðgjafa á það hvernig hægt er efla heilsugæsluna með þverfaglegri þjónustu og auka gæði þjónustunnar þannig að heilsugæslan geti verið fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu eins og stjórnvöldum hefur verið tíðrætt um undanfarin ár.

Fundurinn var miðvikudaginn 12. apríl og fyrir hönd stjórnar Félagsráðgjafafélagsins mættu þær María Rúnarsdóttir, formaður og Sigurlaug Hrefna Traustadóttir, ritari. Auk Óttarrs Proppé, heilbrigðisráðherra voru Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðarmaður ráðherra og Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri.

Stjórnvöld hafa undanfarin ár lagt áherslu á mikilvægi þess í stefnumörkun sinni að bæta þjónustu heilsugæslunnar og gera hana að fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu eins og kemur m.a. fram í reglugerð um tilvísanir fyrir börn sem undirrituð var þann 11. apríl 2017. Félagsráðgjafafélag Íslands fagnar því að leggja skuli áherslu á að gera heilsugæslustöðvar að fyrsta viðkomustað en til þess að það megi takast vel þarf að efla heilsugæsluna til mikilla muna og hefur Félagsráðgjafafélagið margoft bent á mikilvægi þess að auka þverfaglega teymisvinnu á heilsugæslustöðvum.

Félagsráðgjafar hafa gegnt lykilhlutverkum í þróun þverfaglegrar vinnu á Heilsugæslustöðvum Akureyrar, Grafarvogs og Garðabæjar og bendir Félagsráðgjafafélagið á að hægt er að nýta reynsluna af þverfaglegri vinnu á þessum heilsugæslustöðvum til frekari þróunar heilsugæslunnar og efla þannig enn frekar þjónustu við börn og fullorðna. Reynslan sýnir að þar sem félagsráðgjafi hefur verið ráðinn til starfa að þeir geta jafnvel létt undir með störfum lækna, sér í lagi í tengslum við starfsendurhæfingarteymi.

Meðferðarteymi vegna geðraskana barna í Heilsugæslu Grafarvogs hefur verið starfandi í meira en áratug en það er skipað félagsráðgjafa og sálfræðingi en upphaflega var iðjuþjálfi einnig í teyminu. Hlutverk þess er að veita geð- og sálfélagslega þjónustu vegna vanda barna og fjölskyldna þeirra í Grafarvogi með ráðgjöf, meðferð og eftirfylgd barna og fjölskyldna þeirra í samstarfi við aðrar fagstéttir stöðvarinnar. Markmið með stofnun teymisins var að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu í fyrsta stigs þjónustuþrepi í nærumhverfi barna og fjölskyldna. Sérstök áhersla er lögð á að vinna fyrirbyggjandi starf og nálgast börnin og fjölskyldur þeirra sem fyrst og sem yngst. Reynslan af starfi teymisins er ótvíræð en úr hverfinu hefur fækkað tilvísunum í dýrari úrræði eins og á barna- og unglingageðdeild eftir að það var stofnað. Byrja átti á Heilsugæslunni í Grafarvogi en stefnt var að því að stofna þverfagleg teymi á hverri heilsugæslustöð með tímanum en af því hefur enn ekki orðið.

Heilbrigðisráðherra var mjög áhugasamur um slíkt forvarnarstarf á heilsugæslustöðvum og ræddi hann þekkingu sína frá Reykjavíkurborg á störfum geðteymisins sem sett var á laggirnar í Breiðholti til að grípa þá sem eiga á hættu að falla á milli kerfa og á fundinum ræddum við mikilvægi þess að veita þjónustu sem fyrst áður en börn og fullorðnir þurfa enn sérhæfðari þjónustu.

Fulltrúar Félagsráðgjafafélagsins vöktu athygli ráðherra á að starf félagsráðgjafa á Heilsugæslustöð Garðabæjar hefur þróast með öðrum hætti en störf félagsráðgjafa á Heilsugæslunni í Grafarvogi. Þar var ráðinn félagsráðgjafi til að innleiða verkefnið Nýja barnið sem á uppruna sinn á Heilsugæslunni á Akureyri en markmið þess er að leita uppi áhættuþætti og hlúa að þeim sem þurfa meira en hefðbundna mæðravernd. Í Garðabæ er jafnframt meðferðarteymi barna sem félagsráðgjafi stýrir en tilvísanir til teymisins koma bæði frá læknum og grunnskólum bæjarins. Félagsráðgjafinn í Garðabæ hefur jafnframt gegnt lykilhlutverki í starfsendurhæfingarteymi í Garðabæ auk þess sem hann leggur mat á hvort einstaklingar skuli fara í örorkumat svo dæmi sé tekið. Var ráðherra hvattur til þess að kynna sér störf félagsráðgjafa á Heilsugæslunni í Garðabæ til að fá betri innsýn í störf hans. Þótti heilbrigðisráðherra þetta mjög athyglivert og miinntist á að hann hefði nú ástæðu til þess að heimsækja heilsugæsluna í Garðabæ.

Félagsráðgjafafélag Íslands beindi því til heilbrigðisráðherra að skoða hvernig hægt er styrkja heilsugæsluna sem grunnþjónustu. Menntun félagsráðgjafa er að því leyti sérstök að þar er áhersla lögð á þekkingu á sviði stjórnsýslulaga auk þess sem félagsráðgjafar hafa þjálfun í fjölskylduvinnu og málsstjórn (e. case management). Auk þess eru margir félagsráðgjafar með sérfræðiþekkingu á sviði fjölskyldumeðferðar en rannsóknir sýna að fjölskyldumeðferð samhliða öðrum meðferðum bætir árangur meðferðar og leiðir þannig til sparnaðar til lengri tíma litið. Styrkleiki félagsráðgjafa felst einnig í þekkingu þeirra á öðrum þjónustukerfum svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd. Félagsráðgjafar hafa heildarsýn að leiðarljósi í vinnu sinni með fólki og leita leiða til þess að tengja saman þjónustukerfi og þannig ná fram aukinni skilvirkni í þjónustu með samstarfi og samþættingu þjónustu sem veitt er af ólíkum þjónustukerfum og stofnunum samfélagsins.

Að lokum var athygli ráðherra vakin á því að nú eru einungis þrír félagsráðgjafar starfandi innan heilsugæslunnar, einn í Garðabæ, einn í Grafarvogi, og einn á Þroska- og hegðunarstöð. Kom þetta ráðherra og skrifstofustjóra mjög á óvart.

Fundurinn gekk í alla staði vel en það er flókið að koma öllum þeim atriðum og umræðum að á þeim stutta tíma sem úthlutað er til slíkra funda. Við bindum vonir við að fræjum hafi verið sáð á þessum fundi sem ráðherra minnist síðar í störfum sínum, og að stjórnvöld leggi áherslu á þverfaglega teymisvinnu á heilsugæslustöðvum og félagsráðgjafar verði meðal lykilstétta sem starfi í grunnþjónustu heilsugæslunnar