Félagsráðgjafaþing 19. febrúar 2014 og afmæli félagsins

skrifað 24. feb 2014
Salurinn2

Þann 19. febrúar var Félagsráðgjafaþing haldið í tilefni 50 ára afmælis Félagsráðgjafafélags Íslands sem var stofnað þann 19. febrúar fyrir fimmtíu árum. Þingið var einnig haldið til heiðurs Dr. Sigrúnu Júlíusdóttir prófessors og frumkvöðuls í félagsráðgjöf sem fagnaði 70 ára afmæli sínu þann 3. febrúar síðastliðinn.

Að þinginu stóðu Félagsráðgjafafélag Íslands, Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Hollvinasamtök Félagsráðgjafardeildar, ÍS-FORSA og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd.

María Rúnarsdóttir, formaður Félagsráðgjafafélag Íslands setti þingið og hyllti salurinn stofnendu félagsins með lófataki. Að því loknu flutti félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, ávarp þar sem hún fjallaði meðal annars um mikilvægi félagsráðgjafa í samfélaginu. Á þinginu voru haldnir tveir hátíðarfyrirlestrar. Dr. Vivien Cree prófessor í félagsráðgjöf við Edinborgarháskóla fjallaði um feminisma og sögu félagsráðgjafar en hún hefur meðal annars rannsakað og skrifað um barnavernd í Bretlandi. Hinn hátíðarfyrirlesturinn var haldinn af dr. Steinunni Hrafnsdóttur, deildarforseta Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands og Bjarneyju Kristjánsdóttur, formann Hollvinasamtaka Félagsráðgjafardeildar. Á þinginu voru átján málstofur þar sem flutt voru um 70 erindi um félagsráðgjöf og málaflokka sem félagsráðgjafar starfa við s.s. fjölskyldumeðferð, endurhæfingu, ofbeldi í fjölskyldum, þjónustu við aldraða og fatlað fólk, barnavernd, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, skólafélagsráðgjöf og hamfarir. Þetta fyrsta Félagsráðgjafaþing var mjög fjölmennt en um 340 félagsráðgjafar og aðrir áhugasamir um félagsráðgjöf tóku þátt í deginum. Lára Björnsdóttir, fyrrum félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar og fyrrverandi formaður Velferðarvaktarinnar var ráðstefnustjóri.

Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá stofnun Félagsráðgjafafélags Íslands hefur mikið vatn runnið til sjávar. Árið 1964 stofnuðu þeir fjórir félagsráðgjafar sem voru á Íslandi, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa. Þetta vor Guðrún Jónsdóttir, stofnandi Stígamóta, Kristín Gústavsdóttir, Margrét Margeirsdóttir og Margrét Steingrímsdóttir sem er látin. Nú eru félagsmenn um 460 alls en félagsráðgjafar sem hafa fengið starfsleyfi eru öllu fleiri eða um 590. Dagurinn var sannkölluð uppskeruhátíð félagsráðgjafa og félagsráðgjafar sem fags á Íslandi. Að þingi loknu var fögnuðu þinggestir 50 ára afmæli Félagsráðgjafafélags Íslands.