112 er barnanúmerið (Febrúar 2013)

Börn eru frá fæðingu háð umönnun foreldra sinna og hafa gæði umönnunarinnar úrslitaáhrif á velferð barna og fullorðinslíf þeirra. Þó allir foreldrar vilji reynast barni sínu vel eru ýmsir álagsþættir sem hafa áhrif á foreldrahæfni þeirra, bæði ytri og innri þættir eins og fjárhagsvandi, veikindi og skortur á stuðningi.

Þessir þættir spila oft saman, sem eykur álagið enn frekar og hefur umhverfið þannig veruleg áhrif á það hvernig til tekst. Afríska máltækið „það þarf heilt þorp til að ala upp barn" á vel við en vanræksla, ofbeldi og áhættuhegðun barna eru þættir sem tengjast innbyrðis. Því er mikið í húfi að stofnanir samfélagsins séu á varðbergi í því skyni að skima fyrir áhættuþáttum.

Fjölskyldur sem háðar eru opinberri aðstoð verða oftar fyrir íhlutun barnaverndaryfirvalda en aðrar fjölskyldur og því hefur stefnumótun stjórnvalda og almennar aðgerðir bein áhrif á stöðu barna. Stuðningur til foreldra þarf að miða að því að koma í veg fyrir vanrækslu og ofbeldi og þurfa öll svið samfélagsins að taka þátt í því. Vanræksla og ofbeldi fyrstu æviárin hefur áhrif á lífsgæði barna og fullorðinslíf en það er hlutverk barnaverndaryfirvalda að bregðast við tilkynningum um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum og beita stuðningsaðgerðum eftir því sem við á.

Tilkynningaskylda

Barnaverndarnefndir sveitarfélaga hafa það hlutverk að taka á móti tilkynningum um misfellur í aðbúnaði barna. Til að tryggja að barnaverndarnefndum berist upplýsingar frá þeim sem vita um raunverulegar aðstæður barna hefur tilkynningaskylda verið lögfest í barnaverndarlögum. Helstu atriði sem tilkynnt er um varða grun eða vissu um vanrækslu, ofbeldi gagnvart barni eða að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu. Einnig er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu.

Það er algengt að ofbeldi innan fjölskyldu sé þaggað niður en í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla undanfarin misseri um kynferðisbrot gegn börnum hafa fjölmörg mál komið upp á yfirborðið. Þegar barn segist hafa verið beitt ofbeldi er rétt að tilkynna til barnaverndarnefndar en ekki lögreglu. Það er síðan barnaverndarnefndar að meta það hvort málinu er vísað áfram til lögreglurannsóknar. Mikilvægt er að börn og foreldrar viti hvert á að leita þegar grunur er um vanrækslu eða ofbeldi gagnvart barni.

Neyðarlínan

Neyðarlínan – 112 – tekur á móti tilkynningum samkvæmt umboði frá barnaverndarnefndum landsins. Barnaverndarstofa hafði frumkvæði að samstarfinu árið 2003 en markmiðið er að hægt verði að hafa samband við allar barnaverndarnefndir landsins gegnum 112 á öllum tímum sólarhringsins og auðvelda þannig almenningi að rækja lagaskyldur sínar um að tilkynna til barnaverndarnefnda.

Þegar neyðarvörður hefur móttekið tilkynningu skráir hann helstu upplýsingar og kemur þeim til viðkomandi barnaverndarnefndar. Ef talið er að barn geti verið í hættu er barnaverndarstarfsmaður tafarlaust kallaður út. Í tilvikum þar sem aðstæður barnsins eru ekki eins brýnar er upplýsingum komið áfram til barnaverndarnefndar í upphafi næsta vinnudags.

Í tengslum við 112-daginn er vert að vekja athygli á tilkynningaskyldunni og upplýsa almenning um það hvert er hægt að leita þegar velferð barns er í húfi. Í því skyni hefur verið útbúið veggspjald til að dreifa í leik- og grunnskóla, heilsugæslu og á aðra þá staði sem veita þjónustu fyrir börn og fjölskyldur.

Sjá grein á visir.is